Lífshættir

Image
Jaðrakan innan um blóm

Lífshættir

Varptími

Þorri mófugla á Íslandi eru farfuglar og dvelja því stuttan hluta árs hér á landi, eða einungis yfir sumarmánuðina. Þessar tegundir verpa að mestu í maí og júní en einstaka hreiður eru virk í apríl og síðsumars. Vaðfuglarnir liggja á eggjum sínum í 23-34 daga eftir tegundum.

Algengustu spörfuglarnir meðal mófugla á láglendi, þúfutittlingur og skógarþröstur, liggja á eggjum í 13-15 daga. Þá tekur við ungauppeldi en ungar spörfugla koma óþroskaðir úr eggjum og ungar þessara tegunda eru um tvær vikur í hreiðri þar til þeir verða fleygir.

Ungar vaðfugla koma aftur á móti þroskaðir úr eggi og taka til fótanna um leið og þeir verða þurrir. Ungar flestra tegundanna finna sér sjálfir fæðu sem eru einkum ýmsar pöddur og krækiber þegar líður á sumarið.

Ungar tjalda og hrossagauka eru hins vegar dekurdýr en foreldrar þeirra færa þeim fæðu þar til þeir verða sjálfstæðir. Ungar tjalda geta jafnvel þegið fæðu frá foreldrum mánuðum eftir að þeir verða fleygir.

Image
Jaðrakanafjör

Hreiður

Flestir vaðfuglar verpa fjórum eggjum nema tjaldur sem verpur yfirleitt þremur. Algengt er þó að færri eggjum sé orpið ef fyrsta tilraun misferst og fuglarnir verpa aftur. Mjög misjafnt er hversu gjarnar vaðfuglategundir eru á að verpa aftur. Sandlóa verpur fullri urpt allt að þrisvar sinnum en spói verpur ógjarnan aftur nema hann missi undan sér mjög snemma. Flestir hinna lenda þarna á milli.

Nokkur breytileiki er í hvernig hreiðurstæði tegundirnar velja sér. Tjaldur, heiðlóa, sandlóa og spói leggja lítið upp úr því að fela hreiðrin og treysta meira á varnaratferli til að verja hreiður sín. Slíkt atferli getur falist í að læðast snemma af hreiðrinu þegar vart verður við óboðinn gest, látbragði til að lokka afræningja frá hreiðri eða beinum árásum. Hrossagaukur, lóuþræll, stelkur og jaðrakan fela hins vegar hreiðrin sín oftar í gróðri og fljúga upp á stuttu færi.

Algengu spörfuglarnir meðal mófugla í úthaganum, þúfutittlingur og skógarþröstur, verpa að jafnaði 4-5 eggjum og verpa gjarnan oftar en einu sinni á sumri. 

Gróðurhæð stjórnar miklu um hvaða fuglategundir nýta tiltekin svæði. Vaðfuglar verpa á jörðinni en það er breytilegt á milli tegunda hversu gróskumikil svæði þeir kjósa. Spóar, tjaldar og lóur kjósa sér hreiðurstæði í mjög opnum búsvæðum sem eru oft fremur rýr gróðurlendi með lágvöxnum gróðri. Stelkar, hrossagaukar og jaðrakanar velja sér aftur á móti oftar svæði með þéttari gróðri og fela hreiður sín vel.

Flestar vaðfuglategundir forðast svæði með runna- eða trjágróðri. Lóuþræll felur hreiður sín vel í háum gróðri en er lítill og getur fundist bæði í gróðurríku og -rýru landi. Þúfutittlingur felur hreiður sín að jafnaði mjög vel og hann ber nafn með rentu því hreiðrin eru oftar en ekki utan í þúfum. Raunar er að jafnaði meira af þúfutittlingum þar sem er meira þýfi. Þúfutittlingar sækja líka meira í votlendi en aðrar landgerðir.

Skógarþrestir í úthaganum verpa oft í skurðbökkum og runnum og kjósa hávaxnari gróður en aðrir mófuglar. Þeir verpa líka mikið í skógum en sækja oft fæðu á ræktað land utan skóganna. 

Image
Spóahreiður

Varpárangur mófugla

Einn helsti nærtæki þátturinn sem hefur áhrif á stofnstærðir mófugla er varpárangur en fullorðnir fuglar flestra mófugla (þ.e. vaðfuglanna) eru afar langlífir. Meðal mófuglapar verpur fjórum eggjum á ári og getur verið í varpi í 5-10 ár. Það verpur því um 20-40 eggjum yfir ævina. Aðeins tvö af þessum eggjum þurfa að verða að fullorðnum fuglum til að varpstofninn haldist stöðugur. Það er því innbyggt í stofna langlífra fugla að þola mikil afföll á afkvæmum. En afföll eru líka mikil. Afföll verða á hreiðrum, á ófleygum ungum og á ungfuglum frá því þeir verða fleygir og þar til þeir skila sér inn í varpstofninn, oft að einu til þremur árum liðnum.

Á heimsvísu og á Íslandi er talsvert vitað um afföll á hreiðrum, nokkuð um afföll á ófleygum ungum hjá sumum tegundum en afföll á fleygum ungfuglum eru almennt illa þekkt þó þau megi reikna út í sumum tilfellum út frá öðrum þekktum þáttum. Þær rannsóknir sem gerðar hafa verið á afkomu hreiðra íslenskra mófugla á Suðurlandi benda til að það sé almennt rúmlega helmingur hreiðra sem ungar klekjast úr. Þetta telst frekar góður varpárangur miðað við ýmis nágrannalönd þar sem vaðfuglastofnar standa illa. Það fer þó eftir afföllum á öðrum stigum hvort slíkur varpárangur er nægur.

Image
Tjaldur með unga

Heimkynni

Vaðfuglar eru átthagatryggir, þeir koma aftur á sama óðal ár eftir ár sem yfirleitt er ekki fjarri þeim stað þar sem þeir komu úr eggi. Þetta gerir þá viðkvæma fyrir búsvæðatapi, en rannsóknir benda til að þeir kjósi heldur að þrauka við illan kost en að færa sig um set. Þannig er staðbundið búsvæðatap líklegra til að leiða til minnkunar í stofni en breytinga á dreifingu einstaklinga.

Image
Spói og grafa í baksýn

Aldur

Vaðfuglar eru langlífir. Methafinn er tjaldur en elstu þekktu tjaldar eru rúmlega 40 ára. Langlífi fylgir gjarnan vanafesta í svæðanotkun því langlífari fuglar hafa aukin tækifæri til að læra á umhverfi sitt og geta því notfært sér kosti staðkunnugleika. Því eru vaðfuglar oft átthagatryggir og þeir hafa jafnframt hæga viðkomu (eiga fá afkvæmi). Þessir eiginleikar gera tegundir viðkvæmari fyrir breytingum í umhverfi þeirra, svo sem búsvæðatapi og veiðum.

Heimildir

Gunnarsson, T.G., Jennifer A. Gill, Graham F. Appleton, Hersir Gíslason, Arnthor Gardarsson , Andrew R. Watkinson & William J. Sutherland 2006. Large-scale habitat associations of birds in lowland Iceland: Implications for conservation. Biological Conservation 128: 265-275.

Gunnarsson, T.G., Gill, J.A., Newton, J., Potts, P.M. & Sutherland, W.J. 2005. Seasonal matching of habitat quality and fitness in a migratory bird. Proceedings of the Royal Society of London B 272: 2319-2323.

Gunnarsson, T.G., Sutherland, W.J., Alves, J.A., Potts, P.M. & Gill, J.A. 2012. Rapid changes in phenotype distribution during range expansion in a migratory bird. Proceedings of the Royal Society of London B. 279: 411-416.

Jóhannesdóttir, L., Arnalds, Ó., Brink, S., & Gunnarsson, T. G. (2014). Identifying important bird habitats in a sub-arctic area undergoing rapid land-use change. Bird Study, 61(4), 544-552. https://doi.org/10.1080/00063657.2014.962481

Kristinn Haukur Skarphéðinsson, Borgný Katrínardóttir, Guðmundur A. Guðmundsson og Svenja N.V. Auhage 2016. Mikilvæg fuglasvæði á Íslandi. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar Nr. 55. 295 s.

Laidlaw, R. A., Gunnarsson, T. G., Méndez, V., Carneiro, C., Þórisson, B., Wentworth, A., Gill, J. A., & Alves, J. A. (2020). Vegetation structure influences predation rates of early nests in subarctic breeding waders. Ibis, 162(4), 1225-1236. https://doi.org/10.1111/ibi.12827

Méndez, V., Alves, J.A., Gill, J.A. & Gunnarsson, T.G. 2018. Patterns and processes shorebird survival rates: a global review. Ibis. DOI: 10.1111/ibi.12586.

Robinson, R. A. (2018). BirdFacts: profiles of birds occurring in Britain & Ireland. Retrieved 9. march from http://www.bto.org/birdfacts

Tómas Grétar Gunnarsson, Graham F. Appleton, Hersir Gíslason, Arnþór Garðarsson, Philip W. Atkinson, & Jennifer A. Gill. (2007). Búsvæðaval og stofnstærð þúfutittlings á láglendi. Bliki, 28, 19-24.