
Varptími
Þorri mófugla á Íslandi eru farfuglar og dvelja því stuttan hluta árs hér á landi, eða einungis yfir sumarmánuðina. Þessar tegundir verpa að mestu í maí og júní en einstaka hreiður eru virk í apríl og síðsumars. Vaðfuglarnir liggja á eggjum sínum í 23-34 daga eftir tegundum.
Algengustu spörfuglarnir meðal mófugla á láglendi, þúfutittlingur og skógarþröstur, liggja á eggjum í 13-15 daga. Þá tekur við ungauppeldi en ungar spörfugla koma óþroskaðir úr eggjum og ungar þessara tegunda eru um tvær vikur í hreiðri þar til þeir verða fleygir.
Ungar vaðfugla koma aftur á móti þroskaðir úr eggi og taka til fótanna um leið og þeir verða þurrir. Ungar flestra tegundanna finna sér sjálfir fæðu sem eru einkum ýmsar pöddur og krækiber þegar líður á sumarið.
Ungar tjalda og hrossagauka eru hins vegar dekurdýr en foreldrar þeirra færa þeim fæðu þar til þeir verða sjálfstæðir. Ungar tjalda geta jafnvel þegið fæðu frá foreldrum mánuðum eftir að þeir verða fleygir.