
Þó vindtúrbínur séu enn sjaldséðar hér á landi eru uppi hugmyndir um uppbyggingu vindorkuvera víða um land. Áhrif vindorkuöflunar á fugla hafa verið mikið rannsökuð erlendis en vindorkuver valda árlega dauða fjölda fugla sem fljúga á spaða vindtúrbína.
Staðsetning vindorkuvera skiptir miklu máli við að lágmarka þessi áhrif og mikilvægt er að ítarlegar rannsóknir fari fram á hverjum stað þar sem til skoðunar er að byggja slík mannvirki. Auk þess er þéttleiki fugla oft lægri við vindorkuver en fjær, bæði meðan á uppbyggingu stendur og eftir að vélarnar eru komnar í gagnið. Þetta á til dæmis við um suma mófugla sem íslendingar bera sérstaka ábyrgð á.
Mögulegt er að þessi áhrif vegi þyngra en áflugshætta í sumum tilfellum og mikilvægt er að gefa þeim gaum og staðsetja vindorkuver þar sem fæstir fuglar eru, til dæmis á ógrónu landi þar sem er lítil flugumferð.