
Raflínur geta verið hættulegar fyrir fugla í opnum búsvæðum, þá helst vegna áflugs. Algengt er að hræ finnist undir raflínum eftir að fuglar hafa flogið á þær. Oftast eru þetta stærri tegundir svo sem álftir og hafernir, en einnig hafa fundist smærri tegundir svo sem heiðlóa, lóuþræll, hrossagaukur og skógarþröstur. Íslensk rannsókn frá árinu 2018 sýndi að þéttleiki mófugla á varptíma næst raflínum (0-50 m) var einungis um 58% af því sem hann var fjær (450-500 m).
Á löngum línuleiðum geta samanlög áhrif vegna þessa verið mikil. Þær tegundir sem urðu helst fyrir áhrifum voru stelkur og spói, en þær eru algengar í íslenska úthaganum. Sökum þessa gæti verið betra fyrir fuglalíf ef raflínur eru lagðar í jörð, þó það valdi tímabundnu raski á búsvæðum fuglanna.