
Sumarhús þurfa að uppfylla ýmsar kröfur þeirra sem þau reisa. Oftar en ekki eru óskir um að þau séu reist á vel grónu landi og staðsett þar sem lítið er um önnur mannvirki.
Sumarhús og annað sem þeim fylgir (t.d. vegir, pallar, bílastæði) eru því oft sett í opin búsvæði á láglendi Íslands sem hafa fram til þessa verið mikilvæg varpsvæði mófugla. Þetta mun minnka mögulegt varpsvæði þessara fugla og getur auk þess haft áhrif á fugla í næsta umhverfi en ný íslensk rannsókn sýnir að þegar eitt hús var staðsett í opnu búsvæði var þéttleiki fugla af ákveðnum tegundum allt að 75% lægri í 200 m radíus, og þeim fækkaði enn frekar eftir því sem húsunum fjölgaði. Þessi fækkun gæti stafað af truflun vegna umferðar bíla eða fólks, breytinga á búsvæði, s.s. trjáræktar (sjá að ofan) eða afráni.