Votlendi og tjarnir

Vernd og viðhald tjarna

Vatn er nauðsynlegt fyrir allt líf og eru mófuglar engin undantekning. Vötn og tjarnir þjóna mikilvægu hlutverki sem fæðuuppspretta en framboð af vatnadýrum, svo sem rykmýi og vorflugum, er mun meira í nálægð við vötn og tjarnir. Hærri vatnsstaða heldur auk þess jarðveginum mjúkum og rökum, sem er mikilvægt fyrir þær tegundir sem stinga nefinu niður í jörðina í fæðuleit, til dæmis hrossagauk og jaðrakan.

Greiður aðgangur að vatni er líka mikilvægur svo fuglar geti sullað og snyrt sig. Áríðandi er að fuglar snyrti fjaðrir sínar en það viðheldur flughæfni og einangrun og heldur sníkjudýrum í skefjum.

Sýnt hefur verið fram á jákvæð tengsl milli varpárangurs jaðrakana og fjölda tjarna í umhverfinu (sjá graf). Það er því líklegt að viðhald og endurheimt tjarna á opnu landi sé ein besta aðgerðin til að styðja við fuglalíf.  

Image
Votlendi

Vernd votlendis

Votlendi setur mikinn svip á íslenska náttúru og hér má finna fjölbreytt votlendi frá fjöru til fjalla. Votlendi er útbreitt eða um 20% alls gróins lands á Íslandi og þrátt fyrir mikla röskun votlendis er áætlað að hér séu yfir milljón votlendisblettir (flestir minni en 1 ha) sem saman mynda samofið net frá fjörum og leirum upp um ósa, ár og vötn til mýra og flóa.

Votlendi eru mikilvæg búsvæði sem standa undir lífsnauðsynlegum ferlum í náttúrunni. Votlendi hafa afgerandi áhrif á hringrásir vatns og næringarefna og standa undir fjölbreyttu lífríki. Votlendi gegna einnig hlutverki við miðlun vatns en í rigningum taka votlendissvæði til sín vatn eins og svampur, en miðla vatni frá sér í þurrkatíð. Líklegt er að votlendi muni gegna mikilvægara hlutverki bæði fyrir nýtingu og vernd lands með hlýnandi loftslagi, svo sem vegna aðgengis að vatni í þurrum sumrum.

Þannig tempra votlendissvæði rennsli í lækjum og ám, sem er mikilvægt fyrir vatnsbúskap sem og þær lífverur sem þar búa. Votlendi gegnir einnig veigamiklu hlutverki við bindingu á kolefni því há jarðvatnsstaða hægir á niðurbroti jurtaleifa, en við slíkt niðurbrot losnar koltvísýringur út í andrúmsloftið.

Breytingar á ytri aðstæðum, svo sem hækkun meðalhitastigs eða lækkun vatnsstöðu, hafa afdrifarík áhrif á kolefnisbúskap þessara vistkerfa og leiða til losunar kolefnis. Stór hluti votlendis hér á landi hefur þegar tekið miklum breytingum vegna breyttrar vatnstöðu í kjölfar framræslu og í dag má rekja stóran hluta kolefnislosunar á Íslandi til framræstra mýra. 

Votlendi er mikilvægt búsvæði fugla og plantna og fjölmargar tegundir byggja tilvist sína á því. Til dæmis er yfir 70% allra íslenskra fuglategunda að finna í votlendi á varptíma .

Áhrifa votlendis gætir langt út fyrir votlendið því smádýr sem eiga uppruna sinn í vatni berast einnig um þurrlendið og hafa þar áhrif á fæðukeðjur og hafa áburðaráhrif þegar þau drepast. Votlendi er þýðingarmesta búsvæðið fyrir mófugla en þar er að finna hæstan þéttleika mófugla enda nýta allar mófuglategundir votlendi á einhverjum tíma ársins.

Margir mófuglar (vaðfuglarnir) eru einkar vel aðlagaðir aðstæðum í votlendi og geta því nýtt sér auðlindir sem eru ekki aðgengilegar öðrum tegundum. Þeir eru með langa fætur sem eru heppilegar til að vaða í vatni og nef þeirra vel löguð að fæðuöflun í votlendi.

Mikilvægi votlendis fyrir fugla getur þó ráðist af mörgum þáttum svo sem stærð votlendisbletts, framboði annarra búsvæði í nágrenninu og tímabili. Einnig er votlendi breytilegt eftir því hvar þau eru í landslaginu og í hvaða landshluta. Gæði votlendis fyrir fugla fer að líkindum mikið eftir næringarstigi sem ræðst af efnasamsetningu vatns og jarðgrunni.

Votlendi á flæðisléttum sem hafa í gegnum tíðina fengið næringarefnapúlsa í flóðum og jafnvel verið neðansjávar einhvern tímann í sögunni eru frjósöm, en votlendi sem standa ofar í landslaginu, hafa takmarkað gegnumrennsli og byggjast mest á regnvatni eru síður frjósöm.

Votlendi nær gosbeltunum eru frjósamari, með basískari jarðveg vegna áfoks og hafa að jafnaði hærri þéttleika af vaðfuglum.

Image
Lóuþræll

Framræsla

Mikið hefur verið gengið á íslensk votlendi en 47% votlendis hefur verið raskað með framræslu á landsvísu, en á Suðurlandi einu hefur 97% verið raskað að einhverju leyti. Mest framræsla átti sér stað á seinni hluta síðustu aldar en þá var hún styrkt var af ríkinu og tilgangur hennar var að styðja við landbúnaðarframleiðslu.

Í dag eru 15% af framræstu landi nýtt til ræktar og því ljóst að mun meira land var ræst fram en þurfti til ræktunar, þó vissulega hafi framræslan einnig verið ætluð til að bæta beitarland. 

Í lögum um náttúruvernd kveður á um að votlendi stærri en 2 ha njóti sérstakrar verndar, sem og tjarnir og stöðuvatn stærri en 1 ha, og þarf að sækja um framkvæmdaleyfi til að ræsa slík svæði fram.  

Image
Framræsla með gröfu

Skurðir á Íslandi

Lengd skurðakerfis landsins endurspeglar umfang framræslunnar en samanlagt eru um 30.000 km af skurðum á Íslandi.

Image
Skurðir á Íslandi

Endurheimt votlendis

Gildi votlendis fyrir vaðfugla er mikið og er vernd þess votlendis sem eftir er ein mikilvægasta aðgerðin fyrir vernd vaðfuglastofna. Endurheimt votlendis getur líka gegnt mikilvægu hlutverki en víða um land má endurheimta votlendi bæði til hagsbóta fyrir fuglalíf en einnig til að mæta skuldbindingum okkar um minnkaða losun kolefnis út í andrúmsloftið. Þetta er víða hægt að gera án þess að það komi niður á hagsmunum landbúnaðar sem er mikilvægt. Sums staðar getur endurheimt votlendis einnig stutt við aðra hagsmuni svo sem fiskgengd,  flóðajöfnun og aðgengi búpenings að drykkjarvatni í þurrum sumrum.  

Aðgerðir

  • Ekki ræsa fram votlendi
  • Endurheimta votlendi
    • ​Hægt er að sækja um stuðning við endurheimt votlendis hjá Landgræðslunni

 

    Heimildir

    Arnalds, O., Gudmundsson, J., Oskarsson, H., Brink, S. H., & Gisladottir, F. O. (2016). Icelandic Inland Wetlands: Characteristics and Extent of Draining. Wetlands, 1-11.

    Garðarsson, A., B. Magnússon, E. Ó. Þorleifsson, H. Óskarsson, J. Ó. Hilmarsson, N. Á. Lund, S. Þráinsson, and T. Baldursson. (2006). Endurheimt votlendis 1996-2006. Landbúnaðarráðuneytið.

    Gratton, C., J. Donaldson, and J. Vander Zanden. (2008). Ecosystem Linkages Between Lakes and the Surrounding Terrestrial Landscape in Northeast Iceland. Ecosystems 11:764-774.

    Gunnarsson, T. G. (2010). Votlendi og vaðfuglar í ljósi landnotkunar. Tímarit Hins íslenska náttúrufræðifélags 79:75-86.

    Gunnarsson, T.G., Arnalds, O., Appleton, G., Mendés, V. & Gill, J.A. (2015). Ecosystem recharge by volcanic dust drives broad-scale variation in bird abundance. Ecology and Evolution. DOI: 10.1002/ece3.1523

    Gunnarsson, T. G., Gill, J. A., Appleton, G. F., Gíslason, H., Gardarsson, A., Watkinson, A. R., & Sutherland, W. J. (2006). Large-scale habitat associations of birds in lowland Iceland: Implications for conservation. Biological conservation, 128(2), 265-275. https://doi.org/10.1016/j.biocon.2005.09.034

    Hlynur Óskarsson. (1998). Framræsla votlendis á Vesturlandi. Í Íslensk votlendi, Verndun og nýting (ritstj. J. S. Ólafsson). Háskólaútgáfan.

    Lög um náttúruvernd nr. 61/2015. 

    Þóra Ellen Þórhallsdóttir, J. Þ., Svafa Sigurðardóttir, Kristín Svavarsdóttir og Magnús H. Jóhannsson. (1998). Röskun votlendis á Suðurlandi. Í Íslensk votlendi, Verndun og nýting (ritstj. J. S. Ólafsson). Háskólaútgáfan.