
Vernd og viðhald tjarna
Vatn er nauðsynlegt fyrir allt líf og eru mófuglar engin undantekning. Vötn og tjarnir þjóna mikilvægu hlutverki sem fæðuuppspretta en framboð af vatnadýrum, svo sem rykmýi og vorflugum, er mun meira í nálægð við vötn og tjarnir. Hærri vatnsstaða heldur auk þess jarðveginum mjúkum og rökum, sem er mikilvægt fyrir þær tegundir sem stinga nefinu niður í jörðina í fæðuleit, til dæmis hrossagauk og jaðrakan.
Greiður aðgangur að vatni er líka mikilvægur svo fuglar geti sullað og snyrt sig. Áríðandi er að fuglar snyrti fjaðrir sínar en það viðheldur flughæfni og einangrun og heldur sníkjudýrum í skefjum.
Sýnt hefur verið fram á jákvæð tengsl milli varpárangurs jaðrakana og fjölda tjarna í umhverfinu (sjá graf). Það er því líklegt að viðhald og endurheimt tjarna á opnu landi sé ein besta aðgerðin til að styðja við fuglalíf.