Gróðurhæð
Gróðurhæð
Mikilvægi viðhalds á opnu landslagi
Vaðfuglar eru fuglar opins lands og tilvist þeirra veltur á viðhaldi þess. Íslenskt landslag hefur í gegnum aldirnar mótast af landnýtingu og náttúruöflum. Samspil þessara þátta hefur mótað opin og skóglaus búsvæði sem henta mófuglum vel og þessi sérstaða Íslands endurspeglast í stórum varpstofnum mófugla. Að viðhalda landi opnu er skýlaus grunnforsenda fyrir því að halda í nær alla mófuglastofna.
Mynd 1: Myndrænt yfirlit um tengsl algengra vaðfugla við gróðurhæð. Framvinda gróðurs endurspeglar breytingar á grósku á þeim tíma frá því land kemur undan jökli þar til upp vex birkiskógur sem er algengt hástig gróðurs á Íslandi. Gróðurframvindan tekur einungis til gróðurhæðar en ekki deigju og fleiri eðlisþátta sem geta verið afar mismunandi milli svæða með hliðstæða gróðurhæð. Vaðfuglar sem sækja í búsvæði með hliðstæða gróðurhæð sækja oft í misblaut svæði. Lóuþræll sýnir til dæmis meiri tengsl við bleytu en heiðlóa. Láréttar línur sýna áætlaða spönn í búsvæðavali einstakra tegunda hvað varðar gróðurhæð.
Gróðurframvinda
Séu vistkerfi látin í friði, breytast þau frá einu gróðurlendi yfir í önnur með tímanum en slíkt kallast gróðurframvinda. Algeng gróðurframvinda á Íslandi hefur verið að land kemur nakið undan jökli en breytist á endanum víða yfir í birkiskóg með tímanum. Þetta framvinduferli má rjúfa með ýmsum hætti og það gerist bæði af náttúrulegum orsökum eins og vegna eldvirkni og flóða en einnig vegna inngripa mannsins. Mófuglar kjósa helst millistig framvindunnar, opið en gróið land.
Runnagróður
Vegna hlýrri tíðar og minni sauðfjárbeitar undanfarna áratugi hefur sprottið upp mikill runnagróður víða í úthaga. Þessar breytingar eru líklegar til að hafa mikil áhrif á mófuglastofna en rannsóknir sýna að flestir vaðfuglar eru marktækt færri á runnasvæðum en á opnum samanburðarsvæðum. Skógarþresti og hrossagauk fjölgar hins vegar er runnagróður vex upp.
Landgræðsla
Landgræðsla veldur miklum breytingum á gróðri og vistkerfum og hefur þar af leiðandi mikil áhrif á fuglalíf. Þegar auðnir eru græddar upp fjölgar fuglum sem nýta svæðið en uppgræðsla hentar tegundum misvel og aðferðin sem notuð er skiptir miklu máli.
Tvær aðferðir hafa löngum verið algengastar við landgræðslu. Önnur er friðun með áburðargjöf og þá myndast oft fyrst um sinn snöggt mólendi. Hin aðferðin er sáning á lúpínu. Við báðar aðferðir fer fuglalífi mikið fram en hærri þéttleiki mófugla er í oftar í lúpínubreiðum.
Háum meðalþéttleika fugla í lúpínubreiðum er einkum haldið uppi af þúfutittlingi og hrossagauk meðan vaðfuglategundir sem sækja í opið land, eins og heiðlóa og lóuþræll, eru algengari í endurheimtu mólendi.
Mikilvægi hóflegrar beitar
Líklegt er að sauðfjárbeit hafi víða verið mikilvæg við að halda landi í heppilegu ástandi fyrir mófugla því hún kemur í veg fyrir að land vaxi upp í kjarr og skóg sem flestir mófuglar forðast. Nýlegar rannsóknir benda til að hófleg sauðfjárbeit á grónu landi stuðli að því að þessir einkennisfuglar Íslands dafni vel.
Rétt er að árétta að hér er ekki átt við nauðbeit eða beit á gróðurvana landi, heldur hóflega beit á grónu landi með stöðuga gróðurhulu sem dugir til að halda niðri kjarrgróðri. Þetta á t.d. við um mikið af mólendi landsins.
Heimildir
Ballantyne, K., & Nol, E. (2015). Localized habitat change near Churchill, Manitoba and the decline of nesting Whimbrels (Numenius phaeopus). Polar Biology, 38(4), 529-537. https://doi.org/10.1007/s00300-014-1615-6
Boelman, N. T., Gough, L., Wingfield, J., Goetz, S., Asmus, A., Chmura, H. E., Krause, J. S., Perez, J. H., Sweet, S. K., & Guay, K. C. (2015). Greater shrub dominance alters breeding habitat and food resources for migratory songbirds in Alaskan arctic tundra. Global Change Biology, 21(4), 1508-1520. https://doi.org/doi:10.1111/gcb.12761
Davidsdottir, B., Gunnarsson, T.G., Halldorsson, G. and Sigurdsson, B.D. (2016). Avian abundance and communities in areas revegetated with exotic versus native plant species. Icelandic Agricultural Sciences 29, 21- 37, doi: 10.16886/IAS.2016.03
Douglas, D. J. T., Beresford, A., Selvidge, J., Garnett, S., Buchanan, G. M., Gullett, P., & Grant, M. C. (2017). Changes in upland bird abundances show associations with moorland management. Bird Study, 64(2), 242-254. https://doi.org/10.1080/00063657.2017.1317326
Ewing, H. (2017). Impacts of forestry on breeding waders in southern Iceland. MSc thesis. University of East Anglia. Norwich.
Gunnarsson, T.G., Jennifer A. Gill, Graham F. Appleton, Hersir Gíslason, Arnthor Gardarsson , Andrew R. Watkinson & William J. Sutherland (200). Large-scale habitat associations of birds in lowland Iceland: Implications for conservation. Biological Conservation 128: 265-275.
Katrinardottir, B., Alves, J.A., Sigurjonsdottir, H., Hersteinsson, P. & Gunnarsson, T.G. (2015). The effects of habitat type and volcanic eruptions on the breeding demography of Icelandic. Whimbrels Numenius phaeopus. PLOS One http://dx.doi.org/10.1371/journal.pone.0131395.
Pálsdóttir, A. E., J. A. Gill, J. A. Alves, S. Pálsson, V. Méndez, H. Ewing, and T. G. Gunnarsson. (2022). Subarctic afforestation: Effects of forest plantations on ground-nesting birds in lowland Iceland. Journal of Applied Ecology 59:2456-2467.
Rebecca A. Laidlaw Tómas G. Gunnarsson Verónica Méndez Camilo Carneiro Böðvar Þórisson Adam Wentworth Jennifer A. Gill José A. Alves (2020). Vegetation structure influences predation rates of early nests in subarctic breeding waders. Ibis. https://doi.org/10.1111/ibi.12827
Sigurður Björn Alfreðsson (2018). The effects of shrub encroachment on avian communities in lowland Iceland. University of Iceland. Meistararitgerð. Reykjavík.
Sutherland, W.J., Alves, J.A., Amano, T., Chang, C.H., Davidson, N.C., Finlayson, C.M., Gill, J.A., Gill, R.E., González, P.M., Gunnarsson, T.G., Kleijn, D., Spray, C.J., Székely, T., Thompson, D.B.A.( 2012). A horizon scanning assessment of the current and potential future natural and anthropogenic issues facing migratory shorebirds. Ibis 154: 663-679.
Thompson, S. J., Handel, C. M., Richardson, R. M., & McNew, L. B. (2016). When Winners Become Losers: Predicted Nonlinear Responses of Arctic Birds to Increasing Woody Vegetation. PloS one, 11(11), e0164755. https://doi.org/10.1371/journal.pone.0164755
Tómas Grétar Gunnarsson (2010). Votlendi og vaðfuglar í ljósi landnotkunar. Náttúrufræðingurinn, 79, 75-86.