Ræktun og sláttur
Ræktun og sláttur
Afleiðing aukinnar ræktunar og mótaðgerðir
Aðspurðir segjast íslenskir bændur almennt stefna á að auka flatarmál ræktaðs lands á komandi árum. Slík aukning mun óhjákvæmilega hafa áhrif á landslag íslenskra sveita og breyta aðgengi fugla að nauðsynlegum auðlindum.Yfirgnæfandi meirihluti bænda telur þó mikilvægt að hafa ríkt fuglalíf á landi sínu og yfir helmingur segist taka tillit til fugla þegar þeir skipuleggja landnotkun. Hér hafa því verið teknar saman nokkrar mótvægisaðgerðir til að lágmarka áhrif landbúnaðar á varpfugla.
Aðgerðir
- Skilja eftir stykki af óræktuðu landi á milli ræktaðra spildna. Því stærri því betra en það munar um allt í þessu efni
- Haga slætti þannig að hann hafi sem minnst áhrif á verpandi fugla
- Skilja eftir óslegna kanta við skurði og girðingar
- Láta tjarnir óhreyfðar og búa jafnvel til nýjar
Tímasetning sláttar
Í samanburði við önnur gróin búsvæði eru tún sérstök því frjósemi þeirra er haldið uppi með áburðargjöf og sýrustigi í jarðvegi er stjórnað. Vaðfuglar nýta tún talsvert til fæðuöflunar enda er nokkuð auðugt smádýralíf á yfirborði og mikið framboð af ánamöðkum í jarðvegi ræktaðs lands.
Gróður í túnum er oft snemmsprottnari en í búsvæðum umhverfis. Tún verða því oft fyrir valinu sem hreiðurstæði hjá mófuglum, sérstaklega þeim tegundum kjósa að fela hreiður sín eins og stelk og jaðrakan. Þetta skapar hins vegar hættu fyrir fuglana ef sláttur fer fram á meðan fuglarnir eru að nota búsvæðið. Hreiður skemmast og ungar og jafnvel fullorðnir fuglar geta drepist.
Seinkun sláttar
Erlendis er seinkun sláttar notuð sem verndaraðgerð en hafa ber í huga að bændur á suðlægari slóðum hafa meira svigrúm í tíma á meðan bændur hérlendis hafa stuttan tíma til að heyja og því ekki líklegt að seinkun sláttar komi til greina hérlendis1.
Aðferðir við slátt
Þegar tún eru slegin er það yfirleitt gert frá jaðri inn að miðju en sú aðferð er óheppileg fyrir fugla, einkum ófleyga unga, því þeir flýja inn í hærra gras. Þá safnast þeir fyrir í miðjunni og lenda í sláttuvélinni. Sumir leggja sig fram við að safna ungunum saman og forða þeim og er það vel. Þetta er þó tímafrekt og oft erfitt í framkvæmd.
Mynd 1: Myndin sýnir aðferðir við slátt sem hægt væri að nota til að minnka líkurnar á því að fuglar og ungar lendi í sláttuvélinni. Ein aðferð sem hefur gefist vel erlendis er að slá túnin út frá miðjunni, á þann hátt geta ungarnir flúið út í jaðrana. Einnig er hægt að slá frá einum enda túnsins til annars þó hin aðferðin sé líklega þægilegri í framkvæmd.
Viðhald kanta
Kantar á túnum við skurði, vegi og girðingar geta skipt sköpum fyrir fugla, sérstaklega eftir að tún eru slegin, en þá geta kantarnir verið griðarstaður fyrir unga. Stór hluti íslenska stelkastofnsins virðist verpa í köntum, gömlum túnum og órækt nálægt ræktuðu landi og fleiri mófuglar nýta sér kanta til varps og ungauppeldis.
Það virðist færast í aukana í íslenskum landbúnaði að kantar séu takmarkaðir eftir fremsta megni til að auka skilvirkni. Slíkt er þó óheppileg þróun fyrir mófugla, sérstaklega þegar mikil aukning ræktarlands er fyriséð.
Heimildir
Alves, J., Gunnarsson, T., Sutherland, W.J., Potts, P. & Gill, J. (2018). Linking warming effects on phenology, demography and range expansion in a migratory bird population. Ecology and Evolution.
Jóhannesdóttir, L., Alves, J., Gill, J. & Gunnarsson, T.G. (2017). Use of agricultural land by breeding waders in low-intensity farming landscapes.Animal Conservation 21(4). 291–301.
Jóhannesdóttir, L., Gill, J. A., Alves, J. A., Brink, S. H., Arnalds, Ó., Méndez, V., & Gunnarsson, T. G. (2019). Interacting effects of agriculture and landscape on breeding wader populations. Agriculture, Ecosystems & Environment, 272, 246-253. https://doi.org/10.1016/j.agee.2018.11.024
Kleijn, D., Schekkerman, H., Dimmers, W. J., Van Kats, R. J. M., Melman, D., & Teunissen, W. A. (2010). Adverse effects of agricultural intensification and climate change on breeding habitat quality of Black-tailed Godwits Limosa l. limosa in the Netherlands. Ibis, 152(3), 475-486. https://doi.org/10.1111/j.1474-919X.2010.01025.x
Jóhannesdóttir, L., J. A. Alves, J. A. Gill, and T. G. Gunnarsson. (2017). Reconciling biodiversity conservation and agricultural expansion in the subarctic environment of Iceland. Ecology and Society 22.
Laidlaw, R. A., Gunnarsson, T. G., Méndez, V., Carneiro, C., Þórisson, B., Wentworth, A., Gill, J. A., & Alves, J. A. (2020). Vegetation structure influences predation rates of early nests in subarctic breeding waders. Ibis, 162(4), 1225-1236. https://doi.org/10.1111/ibi.12827
Rural Payments and Services. (2015). Supporting guidance for Corncrake Mown Grassland. Rural Payments and Services. Retrieved 06.04. from https://www.ruralpayments.org/publicsite/futures/topics/all-schemes/agri-environment-climate-scheme/management-options-and-capital-items/corncrake-mown-grassland/guidance-for-corncrake-mown-grassland#80240
Sutherland, W. J., Dicks, L. V., Ockendon, N., & Smith, R. K. (2017). What works in Conservation 2017. Open Book Publishers. https://doi.org/http://dx.doi.org/10.11647/OBP.0109