
Ein ástæða fyrir því hversu stóra stofna vaðfugla er að finna hér á landi er mikið framboð af svæðum sem hafa fíngerða og heppilega mósaík af nauðsynlegum landgerðum. Fjölbreytt opin búsvæði á litlum svæðum stuðla að því að fuglar geti fullnægt mismunandi þörfum sínum og unga sinna í nærumhverfinu en þarfir þessara aldursskeiða eru oft mismunandi.
Þegar landslag verður einsleitara, fækkar yfirleitt tegundum sem geta nýtt það. Stofnar eru oft stöðugri þar sem fjölbreytt búsvæði eru í boði, fjölbreytni meiri og þéttleiki hærri. Neikvæð áhrif landbúnaðar víða um heim má meðal annars rekja til aukinnar einsleitni í landslagi sem fylgir aukinni útbreiðslu ræktaðs lands.