
Mófuglar er samheiti yfir fugla sem velja sér opið mó- og mýrlendi til varps. Flestir þeirra eru vaðfuglar en einnig teljast nokkrir smærri spörfuglar og rjúpa til mófugla. Yfir 95% fugla sem finnast í íslenskum úthaga tilheyra innan við tíu tegundum. Flestir þeirra eru vaðfuglar en þúfutittlingur, rjúpa og í auknum mæli skógarþröstur eru einnig meðal þeirra algengu.
Ísland er einkum mikilvægt fyrir vaðfugla því hér eru stórir stofnar og hátt hlutfall heimsstofna nokkurra vaðfuglategunda sem flestum fækkar á heimsvísu. Á þessari vefsíðu er sjónum einkum beint að vaðfuglunum og algengari spörfuglum á láglendi. Langflestir mófuglar verpa á grónu og hálfgrónu landi á láglendi. Þar eru breytingar á landnotkun einnig örastar og vernd mófugla snýr því einkum að atburðum þar.
Langtímavöktun á íslenskum mófuglum er stutt á veg komin og hafa þeir einungis verið taldir árlega á örfáum svæðum á landinu og þær talningar hófust á bilinu 2006-2011. Ekki eru glögg merki um að mófuglum sé að fækka á landinu öllu, en þó sýna talningar af Suðurlandi marktæka fækkun fimm tegunda, heiðlóu, lóuþræls, spóa, stelks og þúfutittlings (Mynd 1). Ekki er vitað hvað veldur þessari fækkun en þar sem þessar tegundir sýna almennt neikvæð áhrif af aukinni landnotkun (mannvirkjum og skógrækt) gæti þetta verið merki um svæðisbundin neikvæð áhrif mannlegra umsvifa á þéttleika mófugla