Mófuglar

Mófuglar er samheiti yfir fugla sem velja sér opið mó- og mýrlendi til varps. Flestir þeirra eru vaðfuglar en einnig teljast nokkrir smærri spörfuglar og rjúpa til mófugla. Yfir 95% fugla sem finnast í íslenskum úthaga tilheyra innan við tíu tegundum. Flestir þeirra eru vaðfuglar en þúfutittlingur, rjúpa og í auknum mæli skógarþröstur eru einnig meðal þeirra algengu.

Ísland er einkum mikilvægt fyrir vaðfugla því hér eru stórir stofnar og hátt hlutfall heimsstofna nokkurra vaðfuglategunda sem flestum fækkar á heimsvísu. Á þessari vefsíðu er sjónum einkum beint að vaðfuglunum og algengari spörfuglum á láglendi. Langflestir mófuglar verpa á grónu og hálfgrónu landi á láglendi. Þar eru breytingar á landnotkun einnig örastar og vernd mófugla snýr því einkum að atburðum þar. 

Langtímavöktun á íslenskum mófuglum er stutt á veg komin og hafa þeir einungis verið taldir árlega á örfáum svæðum á landinu og þær talningar hófust á bilinu 2006-2011. Ekki eru glögg merki um að mófuglum sé að fækka á landinu öllu, en þó sýna talningar af Suðurlandi marktæka fækkun fimm tegunda, heiðlóu, lóuþræls, spóa, stelks og þúfutittlings (Mynd 1). Ekki er vitað hvað veldur þessari fækkun en þar sem þessar tegundir sýna almennt neikvæð áhrif af aukinni landnotkun (mannvirkjum og skógrækt) gæti þetta verið merki um svæðisbundin neikvæð áhrif mannlegra umsvifa á þéttleika mófugla

Image
Breyingar á þéttleika mófugla 2011-2022

Mynd 1: Meðalþéttleiki algengra mófugla á 63 talningarpunktum á Suðurlandi á árunum 2011-2022. Tegundir sem sýna marktæka breytingu í þéttleika eru auðkenndar með aðhvarfslínum (ásamt staðalskekkju) og gefur rauð lína til kynna fækkun en blá lína fjölgun.

Ítarefni um íslenska vaðfugla og um ýmislegt sem tengist efni síðunnar má finna í meðfylgjandi grein: 

Image
Fjöldi mismunandi fuglategunda sem verpa á Íslandi

Tafla 1: Tafla sem sýnir fjölda einstaklinga af mismunandi tegundum sem verpa á Íslandi ásamt stærð heimstofns. Þessar upplýsingar eru svo notaðar til að reikna út % heimsstofns sem talið er að verpi á Íslandi en sú tala er fengin með því að deila fjölda fugla á Íslandi með meðaltali stofnstærðarmats á heimsstofni. Upplýsingarnar um stofnstærð íslenska varpstofnsins eru fengnar úr ritinu Mikilvæg fuglasvæði og heimsstofn frá Birdlife international. 

Image
Hrossagaukur

Heimildir

Áslaug Lárusdóttir, Elín Guðmundsdóttir, Erlín Emma Jóhannsdóttir, Guðrún Óskarsdóttir, Halldór Walter Stefánsson, Hálfdán Helgi Helgason, Hlynur Ármannsson, Kristín Ágústsdóttir, Rán Þórarinsdóttir og Skarphéðinn G. Þórisson. 2019. Ársskýrsla Náttúrustofu Austurlands 2019. Náttúrustofa Austurlands.

BirdLife International. (2023). IUCN Red List for birds. Downloaded from http://www.birdlife.org on 13/03/2023.

Kristinn Haukur Skarphéðinsson, Borgný Katrínardóttir, Guðmundur A. Guðmundsson og Svenja N.V. Auhage (2016). Mikilvæg fuglasvæði á Íslandi. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar Nr. 55. 295 s. rafræn útgáfa leiðrétt í nóvember 2017. http://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_55.pdf

Náttúrufræðistofnun Íslands (2019). Ársskýrsla Náttúrufræðistofnunar Íslands 2019.

Yann Kolbeinsson, Árni Einarsson, Arnþór Garðarsson, Aðalsteinn Örn Snæþórsson og Þorkell Lindberg Þórarinsson (2020). Ástand fuglastofna í Þingeyjarsýslum 2019-2020. (NNA-2009), Náttúrustofa Norðausturlands, skýrsla unnin fyrir Umhverfis- og auðlindaráðuneytið.