
Það var ekki fyrr en á 20. öld að landbúnaður á Íslandi færðist frá sjálfsþurftarbúskap samfara aukinni þéttbýlismyndun. Í kjölfar aukinnar vélvæðingar um miðbik aldarinnar jókst flatarmál ræktaðs lands verulega. Í dag er um 2% af flatarmáli Íslands nýtt til ræktunar (7% undir 200 metra yfir sjávarmáli).
Ræktað land er að finna á öllum láglendissvæðum landsins. Umfang ræktaða landsins er breytilegt eftir landshlutum. Alls staðar er það þó svo að ræktaða landið er innan um önnur minna röskuð búsvæði sem oft eru nýtt til beitar. Íslenskt láglendi einkennist því af fíngerðri mósaík nokkurra búsvæða með lágvöxnum gróðri, sem er ein ástæða þess hve stóra stofna mófugla er hér að finna en þeir geta nýtt sér mismunandi gerðir búsvæða á litlu svæði yfir varptímann.
Nokkrar tegundir mófugla verpa gjarnan á og við landbúnaðarland. Þetta eru einkum þær tegundir vaðfugla sem hafa stærstan hluta stofna sinna í tempraða beltinu en þetta eru tjaldur, jaðrakan og stelkur. Landbúnaðarland er oft frjósamt og með ríkulegri fæðu og gróður þar er fljótsprottinn sem getur hentað tegundum sem fela hreiður sín vel. Það er þó ekki sjálfgefið að þessar tegundir þrífist á landbúnaðarlandi eins og sést vel á stöðu þeirra erlendis.
Á myndum að neðan sjást útbreiðsla ræktað lands (og annarra búsvæða) á láglendi Suðurlands (unnið úr Nytjalandsgrunni Landbúnaðarskólaháskóla Íslands) og hlutfallsleg dreifing tegunda í þeim búsvæðum.