Lög og alþjóðasamningar

Image
Tjaldar á flugi

Lög og alþjóðasamningar

Image
""

Alþjóðalegir umhverfissamningar er lúta að vernd mófugla

Samþykkt um votlendi sem hafa alþjóðlegt gildi, einkum fyrir fuglalíf, hér eftir nefndur Ramsar-samningurinn (Convention on Wetlands of International Importance Especially as Waterfowl Habitat, aðild 1977) var gerð árið 1971.

  • Samningurinn um líffræðilega fjölbreytni (Convention on Biological Diversity, aðild 1994) var undirbúinn í tengslum við Ríó-ráðstefnuna 1992 og lagður fram til undirritunar á ráðstefnunni. Íslendingar gerðust aðilar að honum tveimur árum síðar.
  • Samningur um verndun villtra plantna og dýra og lífsvæða þeirra í Evrópu, oft nefndur Bernarsamningurinn (Convention on the Conservation of European Wildlife and Natural Habitats, aðild 1993) er frá 1979.
  • Samningur um verndun afrísk-evrasískra sjó- og vatnafugla (The African-Eurasian Migratory Waterbird Agreement, aðild 2013) er frá 1995.

Ítarlega umfjöllun um tengsl alþjóðlegra umhverfissamninga og dýraverndar má finna í skýrslunni:

Íslensk lög sem varða vernd mófugla 

Lög um náttúruvernd (60/2013)

Ýmis ákvæði í lögum um náttúruvernd (1. gr.) styðja við vernd mófugla. Lögin eiga að vernda til framtíðar fjölbreytni íslenskrar náttúru og þau eiga að vernda það sem þar er sérstakt eða sögulegt. Þau eiga einnig að miða að sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda og annarra náttúrugæða sem felur í sér að slík nýting á ekki að ganga á mófuglastofna. Þau eiga einnig að stuðla að samskiptum manns og náttúru þannig að hvorki spillist líf eða land, loft eða lögur.

Af verndarmarkmiðum fyrir vistgerðir, vistkerfi og tegundir (2. gr.) er tilgreint að varðveita skuli tegundir lífvera og erfðafræðilega fjölbreytni þeirra og tryggja ákjósanlega verndarstöðu þeirra. Í grein laganna sem fjallar um sérstaka vernd (61. gr.) er kveðið á um vernd votlendis sem nær 2 ha að stærð og tjarna sem ná 1000 m2 en það ákvæði styður vel við mófugla. Mikill misbrestur er þó á að lögbundin votlendisvernd nái fram að ganga.

Ýmis fleiri og almennari ákvæði eru í lögunum sem gagnast mófuglum sem eiga við um ýmsar framkvæmdir og almenna aðgát í samskiptum manna við önnur dýr. 

Lög um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum (64/1994)

Lögin, sem oft eru nefnd villidýralögin til hægðarauka, kveða á um vernd og nytjar af villtum hryggdýrum á Íslandi. Allir fuglar eru í grunninn friðaðir á Íslandi en hægt er aflétta friðun á ákveðnum tímabilum samkvæmt reglugerð vegna nytja. Nokkuð er um að fuglategundir séu drepnar án sýnilegrar ástæðu á grundvelli laganna en þau ákvæði bera vott um úrelt viðhorf og hafa lengi þarfnast endurskoðunar (ref).

Allir mófuglar eru friðaðir árið um kring samkvæmt lögunum. Þar segir einnig um búsvæði þeirra (6. gr.) „Ávallt skal gæta fyllstu varkárni og nærgætni gagnvart villtum dýrum og búsvæðum þeirra og forðast óþarfa truflun. Við skipulag og landnotkun skal tekið tillit til villtra dýra og búsvæða þeirra, sbr. lög um náttúruvernd og skipulagslög“.

Samkvæmt lögunum eru mófuglar því ekki einungis friðaðir heldur er skylt að taka tillit til búsvæða þeirra við skipulag og landnotkun sem er afar mikilvægt. 

Lög um velferð dýra (55/2013)

Gilda um öll hryggdýr, þ.á.m. mófugla. Markmið laganna er að dýr séu laus við „…vanlíðan, hungur og þorsta, ótta og þjáningu, sársauka, meiðsli og sjúkdóma, í ljósi þess að dýr eru skyni gæddar verur.“

Mófuglar eru flestir (vaðfuglarnir) langlífir fuglar. Þeir hafa þróað félagskerfi sem verkar bæði innan og milli tegunda, sýna mikla átthagtryggð, tryggð við maka, jafnvel í áratugi og fleiri eiginleika sem byggja á stöðugu umhverfi. Ekki verður hjá því komist að álykta að mófuglar séu „skyni gæddar verur“ og að hvers kyns eyðilegging og álagsþættir á búsvæði þeirra og lífshætti séu líklegir til að valda þeim fjölbreyttum óþægindum sem ættu að falla undir lög um dýravelferð. 

Image
Stelkur hjá skilti sem stendur ,,skotveiði bönnuð"