Fjölbreytt búsvæði

Image
Láglendi Íslands

Fjölbreytt búsvæði

Ein ástæða fyrir því hversu stóra stofna vaðfugla er að finna hér á landi er mikið framboð af svæðum sem hafa fíngerða og heppilega mósaík af nauðsynlegum landgerðum. Fjölbreytt opin búsvæði á litlum svæðum stuðla að því að fuglar geti fullnægt mismunandi þörfum sínum og unga sinna í nærumhverfinu en þarfir þessara aldursskeiða eru oft mismunandi.

Þegar landslag verður einsleitara, fækkar yfirleitt tegundum sem geta nýtt það. Stofnar eru oft stöðugri þar sem fjölbreytt búsvæði eru í boði, fjölbreytni meiri og þéttleiki hærri. Neikvæð áhrif landbúnaðar víða um heim má meðal annars rekja til aukinnar einsleitni í landslagi sem fylgir aukinni útbreiðslu ræktaðs lands. 

Image
Spóaungi

Fjölbreyttar þarfir mófugla

Mófuglar nýta sér mismunandi svæði til að uppfylla þarfir sínar. Taka má jaðrakana sem dæmi. Fullorðnir jaðrakanar sækja í tjarnir og polla í fæðuleit. Hreiðrum er fundinn staður úti í einsleitri mýrinni þar sem það vekur síst athygli afræningja, en hreiðurskálin sjálf er yfirleitt vel falin inni í gróðurtoppi. Ungar sækja í þurrari teyginga af gras- og blómlendi þar sem gróður er hærri, þýfi gjarnan meira og fæðuframboð meira en úti í mýrinni.

Vernd fjölbreyttra opinna landgerða svo sem votlendis, mólendis og áreyra ásamt hóflegri beit stuðlar að landslagi sem er heppilegt fyrir mófugla.  

Heimildir

Benton, T. G., J. A. Vickery, and J. D. Wilson. 2003. Farmland biodiversity: is habitat heterogeneity the key? Trends in ecology & evolution 18:182-188.

Johannesdottir, L., J. Alves, J. Gill, and T. G. Gunnarsson. 2018. Use of agricultural land by breeding waders in low‐intensity farming landscapes. Animal Conservation 21:291-301.

Lilja Jóhannesdóttir, Jennifer A Gill, Jose A. Alves, Sigmundur H. Brink, Olafur Arnalds, Verónica Méndez, Tómas Grétar Gunnarsson 2019. Interacting effects of agriculture and landscape on breeding wader populations. Agriculture Ecosystems & Environment 272:246-253., DOI:10.1016/j.agee.2018.11.024

Tómas Grétar Gunnarsson 2010. Votlendi og vaðfuglar í ljósi landnotkunar. Náttúrufræðingurinn, 79, 75-86.