Mói - landnotkun og líffræðileg fjölbreytni

Rannsóknasetur HÍ á Suðurlandi

Mófuglar hafa verið áberandi í landslagi íslenskra sveita um aldir. Kannski mun lengur. Skáld lofsyngja þá og tilvist þeirra er samofin menningu þjóðarinnar. Vell spóans segir Íslendingum að þeir hafa lifað af veturinn og dýrðin lóunnar vekur sumarið í brjóstinu. 

Þessi tengsl fuglanna, fólksins og landsins eru einstök og stafa meðal annars af því að sumar tegundir mófugla eru hvergi í veröldinni algengari en á Íslandi. Um 85% allra mófugla verpa á láglendi landsins og landnotkun þar ræður framtíð mófuglastofna. Að samræma mófuglavernd og landnotkun er krefjandi og það fækkar hratt í mófuglastofnum víða um heim í takti við óhagstæðar breytingar á landnotkun.

Nú eru einnig vísbendingar um að íslenskum mófuglum sé að fækka þar sem umsvif mannsins hafa aukist hvað mest á láglendi á síðustu áratugum. Þar sem vernd mófugla byggir einkum á þeim ákvörðunum sem teknar eru um landnotkun er ýmislegt hægt að gera til að styðja við stofna þeirra. Að varðveita og bæta skilyrði fyrir mófugla styður einnig við fjölmarga aðra þætti líffræðilegrar fjölbreytni.
 
Tilgangur vefsíðunnar er að veita þeim sem vilja taka þátt í að vernda mófugla og þeim sem vilja vita meira um mófugla aðgengilegar upplýsingar. Settar eru fram ábendingar um mófuglavernd sem byggja á vísindalegum grunni.

Tillögurnar geta hentað þeim sem mestu ráða um framtíð mófuglastofna svo sem þeim sem koma að skipulagsgerð, bændum, landeigendum, stjórnvöldum og öðrum áhugasömum um vernd mófugla. Það er von okkar sem stöndum að síðunni að hún verði bæði gagnleg fyrir fuglavini og mófugla og að báðar þjóðir dafni betur fyrir vikið.